þriðjudagur, ágúst 16, 2022

Heitt og einangrun eða öllu heldur skortur á einangrun. Og Liverpool.

 Afskaplega heitt hérna í dag og reyndar í gær líka. Hitinn er búinn að toppa 30 gráðurnar þó nokkuð sinnum upp á síðkastið. 

Við búum í rúmlega 70 ára gömlu húsi og okkur grunar að það hafi hreinlega gleymst að einangra tvö svefnherbergi í húsinu. Okkar svefnherbergi og herbergið hans Krumma. Þegar við bönkum á útveggina er sama tómahljóðið og í höfði fyrrum forseta bandaríkja Norður Ameríku. Okkur langar afskaplega að finna lausn á þessu, en þorum ekki fyrir okkar litla líf að hleypa iðnaðarmanni inn fyrir þröskuldinn. Það gæti orðið dýrt. Fengum pípara í heimsókn í fyrra og það var ekki nein gleði af þeim reikningi og áfram var kalt. 

Planið er því að spjalla við Gunnlaug í eyjum og fá ráð hvernig maður ber af sér kuldann og finnur innri gleði. 

Að öðru leyti er að að frétta að Magnea er kominn á dagvagtir, sem þýðir að fjölskyldulíf verður nú eðlilegt, hvað svo sem eðlilegt er. Afskaplega gott að við erum tvö hérna á kvöldin alla daga núna. Áður var Magnea á kvöldvöktum 14 daga í mánuði og það var nú orðið ansi leiðinlegt. En nú höfum við meiri tíma saman öll alla seinniparta og bara gott með það.

Liverpool hefur átt velgegni að fagna síðustu ár. 19. titillinn kom í Covid og flott annað sæti síðustu tvö árin. Allan þennan tíma hef ég varla séð liðið spila. Ég hef ekki tímt að kaupa áskrift og svo eru leikirnir komnir á svo margar rásir að það er auðveldara að muna pí með 1000 aukastöfum en á hvaða rás næsti leikur fer fram. 

Ég ákvað sem sagt að nú væri nóg komið. Nú ætla ég að vera með í fagna mínum félögum í Lifrarpollinum. Áskrift keypt og liðið hefur ekki spilað verr síðan fyrir Covid. Held að það sé einhver bölvun hérna.

kveðja í bili,


Arnar 

laugardagur, janúar 22, 2022

Lögbirtingurinn og Rauða Kross maðurinn

 Axel Arnar Nikulásson er fallinn frá aðeins 59 ára. Hann var einn af þeim sem ég leit alltaf upp til. Það var pínu sárt að sjá hann fara yfir í KR á sínum tíma, en maður dáðist alltaf að keppniskapinu hans. Ekki má gleyma því að hann var jú með að tryggja fyrsta titil Keflavíkur 1989. Akkúrat í sama mánuði og bjórinn var leyfður.

Axel ólst upp í Smáratúninu, næsta gata fyrir neðan Hátúnið. Bræður mínir voru á hans reki og þekkja hann því betur þannig. Ég kynnist honum í raun fyrst þegar ég er kominn í Fjölbraut. Maður vissi jú alveg hver hann var.

Hann kenndi mér tvo söguáfánga í Fjölbraut og gerði það vel. Hann er líklega sá fyrsti sem kenndi mér almennilega að skrifa ritgerð. Að hafa eitthvað markmið með smíðinni og ekki bara "hrauna úr heilanum" og setja punkt. 

Steini vinur var líka með í amk öðrum söguáfanganum og þar komum við að titli þessa bloggs. Einhvern tímann hafði ég gleymt að lesa fyrir tímann og Axel spurði mig af hverju í ósköpunum ég hefði ekki lesið heima. Ég í fáti mínu og trúðsskap sagðist hafa verið á fundi hjá Rauða Krossinum. Síðan þá var ég alltaf kallaður Rauða Kross maðurinn og næstum aldrei mínu eigin nafni. 

Ég og Steini, vorum einn föstudagsmorgun ekki að nenna að vera í skólanum. Það var eitthvað í bænum sem togaði. Ég var í hinum hópnum í sögu, svo ég var búinn með þann tíma vikunnar og Steini átti svo að mæta á þessum föstudegi. Tíminn átti að fjalla um meðferð barna og lagabreytingar til verndar börnum. Anyway, Steini ákvað að skrópa, en fann grein úr Lögbirtingarblaðinu varðand meðferð barna, tók afrit og gaf Axel og við brunuðum í Bæinn. Steini fékk ekki fjarvist að mig minnir og ég held að ég sé að muna söguna rétt, en var svo kallaður Lögbirtingurinn eftir þetta. :)

Eins og fleiri hafa sagt að þá var alltaf eins og Axel vissi nokkurn veginn hvað maður var að brasa þó að maður hitti hann ekki oft. Og hann virkilega gaf manni fulla athygli þegar maður hitti hann.

Seinustu árin hafa tengslin aðallega verið stutt Facebook skilaboð.

Blessuð sé minning Axels.föstudagur, desember 24, 2021

 Tuttugasti og fjórði desember. Jólablogg.

Ég var búinn að lofa Helga Þór (syngist með ó Helga Nótt) að blogga áður en jólaklukkurnar hringja klukkan 18 á aðfangadegi jóla.

Árið hefur verið að mörgu leyti mjög fínt. Fyrirtækið sem ég vinn hjá hefur líklega ekki átt betra fjárhagslegt ár. Það sýndi sig svo berlega í jólagjöfinni. Súkkulaðinu hefur fækkað um eitt og bollinn er númeri minni enn í fyrra. Þegar ég byrjaði hjá UPS var vart hægt að loka kassanum af því að sælgætið flaut yfir. Það sama er á teningnum í ár, nema að ástæðan fyrir því að kassinn var útbelgdur var að uppblásna plastið, til að vernda smábollann, fyllti út í allt og sjálfur súkkulaðispænirinn sem fylgdi með var farinn að óttast um sína tilveru og þráði að komast sem fyrst í meltingarfæri þyggjandans. 

Hvað er merkilegast á árinu, jú líklega það að við loksins keyptum okkur húseign í bænum Ryslinge á miðjum Fjóni. Ryslinge er borið fram Ruslinge og vekur nákvæmlega enga kátínu hjá dönskum vinum en íslenskir brosa út í annað.

Við erum búin að vera, hægt og rólega, að bæta og breyta í húsinu okkar í Ruslinu. Eiginlega fyrst núna að okkur finnst við almennilega vera heima hjá okkur. 

Ein stærsta breytingin er líklega eldhúsið. Gamla eldhúsið, sem samt var bara rétt rúmlega tveggja ára, var með myntugrænar skápahurðar í háglans. Til að toppa dýrðina voru leðurhöldur. Við virðumst vera þau einu sem fannst þetta ekki fallegt. Aðrir dásömuðu eldhúsið, sem fær mig til að halda að fólk sé almennt smekklaust. Anyway, við skiptum út skápahurðunum út með hvítum því að okkur langar að leika okkur með liti í eldhúsinu.

Stofan var máluð tvisvar og fékk trégólf. Við erum samt að fara breyta henni aftur. Sjáum til hvað gerist. Garðurinn fær athygli næsta sumar og svo er planið að planið að framan breytist eitthvað.

Fjölskyldan eignaðist svo hund í ágúst byrjun. Flóki heitir hann og er lífleg bómull, sem hlýðir nánast aldrei þegar við köllum á hann, en þekkir í sundur skrjáf í umbúðum, hvort það sé grænmeti eða hundanammi. Ég er hægt og rólega að sættast við hundinn, svona svipað og vera með þurrar iljar og með tímanum bara sættast við orðinn hlut og módelstörf í sokkabransanum eru fjarlægur draumur og jafnvel tálsýn.


Núna sit ég með ágætis rauðvín í glasi og horfi á andalæri malla í ofninum og fer að brúna kartöflur hvað úr hverju. Á morgun verður svo jóladagurinn og við ætlum að opna pakkana þá, ekki í kvöld. 

Kvöldið verður hugga með krökkum og óþarflega miklum hitaeiningum.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og nýttár þegar það svo nú kemur. vonandi verður þessu Covid bulli lokið næst þegar ég blogga.


knús og kram 

Arnar Thor


föstudagur, júní 25, 2021

Afmælisblogg

 Helgi vinur á afmæli í dag. Hann er einn af mínum bestu vinum og er svo vinalegur að hringja í mig reglulega á leið úr vinnunni. Samtölin eru oft rík af umferðahljóðum, sambandsleysi og ofanítal, en mér þykir vænt um þessi símtöl þó ég heyri stundum bara helminginn af því sem er sagt. Að minnsta kosti er ekkert ofsagt.

Við Helgi erum búnir að þekkjast ansi lengi og vinskapurinn dafnað. Við eigum sameiginlegt áhugamál í NBA körfuboltanum og hann er sá eini sem ég deili þessu áhugamáli med. Magnea hefur þó leyft mér að babla klukkan 7 á morgnana þegar ég er að renna yfir úrslitin frá því um nóttina.

Ég komst að því áðan að við erum skyldir í sjötta lið, þannig að ekki bara er hann vinur minn, hann er nánast bróðir minn. 

Til hamingju með 50 árin kæri vinur. Heyri í þér í dag!
mánudagur, apríl 12, 2021

Sage Barista Express.


Eins og flestir hafa gleymt þá varð ég fimmtugur fyrir viku síðan. Magnea var búin að undirbúa allar gjafir og guð minn almáttugur hvað ég er ánægður. Ég fékk pening frá Magneu, sem við munum nota í helgarferð þegar það verður auðveldara að ferðast. Sundnámskeið, körfubolta, alfræðibók um vín, svona fyrir "dummies".Mjög gott fyrir bjána eins og mig. Matthías kom svo með krem handa mér sem hann hafði búið til sjálfur :) 

Svo var það græjan! Magnea hóaði í alla fjölskylduna og fékk gengið til að slá saman í þetta súper tæki. Það hefur fengið ljómandi dóma og þó ég sé ennþá að læra á gripinn að þá er ég í skýjunum yfir þessu tæki. Ég er búinn að klappa því og strjúka eins og Gollum með hringinn sinn. Með þessu fylgdi ógrynni af nýristuðu kaffi frá öllum heimsálfum, nema eyjaálfu og suðurskautinu.
Ef þið eigið leið framhjá Hestehavevej 34 í Ryslinge í framtíðinni þá get ég boðið upp á latte.

lifið heil og njótið.

Arnar 


 

sunnudagur, apríl 11, 2021

Sunnudagur
Jæja, best að halda þessu áfram. Helgi hefur kvartað sáran yfir því að ég bloggi aldrei lengur. Nú er að koma þriðja færslan á fáeinum. Margt er þegar þrennt er segja menn og fylgihlutir. Kannski hægt að byrja á að þrenningin samanstendur af þremur einingum. Þríhyrningur væri lítils virði ef hornin væru bara tvö, eða ofaukið ef þau væru 4. Pizzasneið er þríhyrnd svona cirka. Fram að janúar 2019 átti ég bara 3 börn. Ég á ennþá 3 bónus börn. Þrisvar hafa Detroit, Miami og Philadelphia orðið meistarar í NBA deildinni, reyndar fyrsti titill Philadelphiu 1955 sem Syracuse Nationals eins og allir vita.
Þrennt þarf að hafa í huga þegar maður býr til kaffi, sem sagt kaffi, heitt vatn og drykkjarmál. Þrisvar hefur mér dottið í hug í dag að henda pappír í pappírsgáminn, en næst kannski í fjórða. 
Jara hefur þrisvar í dag kveikt á sjónvarpinu og þrisvar hefur hún strítt Fróða bróður sínum í dag. Seinasta skiptið varð til þess að kakó sullaðist yfir sófann. 

Sysktini mín eru þrjú, hvert öðru betra og alveg ótrúlega ólík hvert á sinn hátt. Þegar við skrifuðum undir kaupsamning voru 3 mánuðir í afhendingu. Barnabætur í Danmörku koma á þriggja mánaða fresti. Jara er á þriðja ári og á afmæli á þriðja degi ársins. Einmitt þrír mánuðir síðan hún varð tveggja ára. Árinu er hægt að skipta upp í þrennt. 

Hlakka til að koma með fjórðu færsluna.

Lifið heil og njótið.

Arnar 
 

fimmtudagur, apríl 08, 2021

Hádegismatur
 Ég hef alltaf haft dálæti á síld. Helst í sinnepi eða Karrýi og þá með nóg af lauk og eplum ef ég kem því við. Með þessu vil ég helst ljósan bjór. Kannski ekki heppilegt í dag þar sem ég er í vinnunni. En já, þetta er sælgæti fyrir mig. Veit ekki hvenær þetta byrjaði, ætli Siglufjarðar genin séu ekki að poppa upp og láta vita af sér. Ég skellti svo á eina sneið með skinku og chorizo til að gefa þessu alþjóðlegan blæ. 

Ég man alltaf að mamma, sem var nú ansi mikill gourmet kokkur, fannst ótrúlega gott að gúffa í sig einum sviðakjamma eða sviðasultu. Þetta varð helst að vera hádegis snarl...amk þannig er það í minningunni. Sama er um síldina fyrir mig. Elska þetta “combó” Síld, rúgbrauð (helst danskt rúgbrauð) og ljós bjór, en þá já sem hádegis snarl.

Annars er ég bara góður í dag. Svaf vel og dreymdi kaffivélina og hvernig maður býr til góðan latte.


Lífið heil og njótið.

Arnar